Úthlutunarreglur Starfsmenntunarsjóðs LSS


Starfsmenntunarsjóður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna byggist á samkomulagi milli Samband íslenskra sveitarfélaga, Ríkissjóðs f.h. fjármálaráðherra og Landssambandsins. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að bættri verkkunnáttu og aukinni hæfni félagsmanna í starfi með styrkjum vegna kostnaðar við slíka menntun. Þá hefur sjóðurinn það markmið að sýna frumkvæði að aukinni almennri starfstengdri menntun til starfsstéttarinnar.

1. Umsóknum skal skila á rafrænu formi sem nálgast má á heimasíðu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, www.lsos.is . 

 
2. Stjórn starfsmenntunarsjóðsins skal skipuð tveimur fulltrúum frá LSS og tveimur frá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga. Nefndarmönnum ber að rækja starf sitt samkvæmt erindisbréfi. Úthlutunarnefnd sjóðsins heldur a.m.k. fundi fjórum sinnum á ári; í janúar, maí, september og nóvember, þar sem fjallað er um umsóknir sem borist hafa fyrir þann tíma. Kjörtímabil úthlutunarnefndar starfsmenntunarsjóðs LSS er tvö ár og hefst 1. júní að afloknu aðalþingi félagsins. Úthlutunarnefnd A-deildar er jafnframt úthlutunarmefnd H-deildar. 

3. Tekjur sjóðsins eru: a) Framlag frá launagreiðendum; ríki, sveitarfélögum, Isavia ohf og Neyðarlínunni, sem nemi 0,33% af heildarlaunum slökkviliðs- og Sjúkraflutningamanna og Neyðarvarða í fullu starfi, skv. kjarasamningum LSS, b) Vaxtatekjur. Sjóðurinn verði ávaxtaður á þann hátt sem úthlutunarnefnd og starfsmenn LSS telur hagkvæmastan á hverjum tíma. Stjórn LSS ber ábyrgð á fjárreiðum og árs uppgjöri sjóðsins. 

4. Umsækjendur eru hvattir til þess að vanda frágang umsókna. Í umsókn skal koma fram nákvæm lýsing á námi/námskeiði, áætlaður kostnaður og áætlaður námstími. Sá sem skilar inn ófullkomnum upplýsingum eða röngum ber áhættuna af því að umfjöllun seinki eða að umsókn verði hafnað. Umsóknir hljóta raðnúmer eftir þeirri röð sem þær berast skrifstofu Starfsmenntunarsjóðs og eru þær teknar fyrir á stjórnarfundum til úthlutunar eftir þeirri röð. 

5. Kostnaður umsækjanda við nám, námskeið, námsstefnur, ráðstefnur eða annað sem hefur í för með sér sambærilega þekkingaröflun til aukningar starfshæfni umsækjanda og tengja má starfi umsækjandans er styrkhæf. Áhersla er lögð á að umsækjandi sé að bæta menntun sína að eigin frumkvæði og að sú menntun tengist eða geti nýst honum í starfi hans. Telji úthlutunarnefnd að umsókn til sjóðsins ætti að greiðast af öðrum (t.d. vinnuveitenda, til að viðhalda menntunarstigi liðsins), er heimilt að hafna umsókn svo og ef um er að ræða nám sem liggur til grundvallar því að menn geti orðið slökkviliðsmenn/sjúkraflutningamenn s.s. grunnnám. 

6. Ekki er greitt fyrir H menn námskeiðgjald á þau námskeið sem rekstaraðila ber að greiða fyrir (s.s. Neyðarbílsnámskeið), en hægt er að sækja um ferða- og gistikostnað. Þegar farnar eru hópferðir á vegum LSS geta H menn sótt um í sjóðinn (svo fremi sem þeir greiði í sjóðinn). Veittur er styrkur í hlutfalli af greiðslum í stjóðinn. Þeir sem greiða yfir 5.000kr á síðustu 12 mánuðum frá því að umsókn berst, fá fullan styrk. Þeir sem greiða 3.000 - 4.999kr fá 50% af fullum styrk og þeir sem greiða 1.000,- 2.999kr fá 25% af fullum styrk.

7. Úthlutunarnefnd setur reglur um hámarksfjárhæðir og skulu þær endurskoðaðar einu sinni á ári. Þær eru sem hér segir: (uppfært janúar 2016 samkvæmt vísitölu neysluverðs).

a.: Námskeiðsgjöld eða nám innanlands og erlendis að hámarki 100.000-kr.

Ráðstefnur eða námsstefnur að hámarki 70.000-kr.
Ekki eru veittir styrkir til bókakaupa, launamissi og ferðakostnaðar innanlands.
Ekki eru veittir styrkir til bókakaupa og launamissi vegna námskeiðs erlendis

b. Heimilt er að veita hærri upphæðir til faglegra námskeiða eða náms erlendis, sem er 90 dagar eða lengra. Umsóknir verða að berast fyrir 1 apríl ár hvert fyrir lengri fagnámskeið. Sjóðsstjórn gerir kröfu um námsframvindu. Ljúki styrkþegi ekki námi með prófgráðu á tilskyldum tíma, getur sjóðurinn fraið fram á endurgreiðslu helmings upphæðarinnar.  Þeir aðilar sem fá hámarksstyrk geta ekki sótt um styrki 3 árum eftir að styrkveiting fór fram.
 
c. Umsóknir Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna:
Til námskeiðs eða ráðstefnuhalds:
    Færri en 10 manns 125.000.-
    11 – 25 manns 245.000.-
    26 manns eða fleiri 470.000.-

Heimilt er að veita allt að1.100.000.-
Úthlutunarnefnd sjóðsins hefur heimild til að ákveða fjárhæðir í stærri verkefni.

d: Sjóðnum er heimilt að styrkja nám eða námskeið sem tengjast ekki starfinu að hámarki 50 þús pr ár Þó ekki tómstundarnámskeið samanber 8 gr.

8.

a.    Sjóðurinn styrkir ekki tómstundanámskeið.
b.    Sjóðurinn styrkir ekki leiðbeinandanámskeið

9. Greiðslur úr sjóðnum fara fram eftir að umsækjandi hefur gert grein fyrir kostnaði með því að leggja fram reikninga. Reikningar vegna námskeiðs- eða skólagjalda skulu vera númeraðir og stimplaðir og eiga sannanlega uppruna sinn í bókhaldi viðurkenndrar námsstofnunar. Aðrir reikningar skulu vera númeraðir og stimplaðir og sannanlega tilkomnir vegna kostnaðar við nám eða verkefni. Reikningurinn skal einnig vera merktur með nafni og kennitölu sjóðsfélaga.
Ef sjóðfélagi hefur fengið tvígreiddan styrk eða ofgreidda styrkupphæð þarf hann að tilkynna sjóðnum mistökin og endurgreiða þegar í stað þá upphæð sem um munar til sjóðsins aftur.
Upplýsingar til skattyfirvalda: Í byrjun hvers árs eru sendar upplýsingar til skattyfirvalda þar sem gerð er grein fyrir styrkþegum og styrkupphæðum sl. árs. Tilkynning er einnig send hlutaðeigandi styrkþega ásamt leiðbeiningum um meðferð styrksins á skattframtalseyðublaði.

10. Styrkhæfir eru félagar innan Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Sjóðfélagar þurfa að hafa verið a.m.k. 12 mánuði samfellt í sjóðnum þegar sótt er um styrk. Umsækjandi verður að vera í starfi hjá vinnuveitanda þegar hann sækir um styrkinn og þegar hann notar hann.

11. Heimilt er að veita styrki úr sjóðnum í samstarfsverkefni við aðra.

12. Umsóknir fyrir námskeið, ráðstefnuhald og hámarksstyrk, skal skila inn til sjóðsins fyrir 1. maí ár hvert. Umsóknir skulu vera fullmótaðar með dagskrá.

13. Þeir sem aldrei hafa hlotið styrk úr sjóðnum njóta að jafnaði forgangs við úthlutun. Umsækjandi sem hlotið hefur styrk úr sjóðnum síðastliðið almannaksár frá dagsetningu úthlutunar, getur að hámarki hlotið styrk er nemur ónotuðu hlutfalli af hámarksupphæð, sbr. 6. grein.

14. Ef styrkloforðs er ekki vitjað innan 3 mánaða frá dagsetningu tilkynningar sjóðsins til umsækjanda fellur styrkloforðið niður.

15. Ef sjóðfélagi er ósáttur við afgreiðslu sjóðsins á styrkumsókn sinni og fylgigögnum, á hann ávallt rétt á að vísa erindi sínu til stjórnar félagsins. Verður afgreiðslan þá tekin upp á næsta fundi stjórnar, og niðurstaðan tilkynnt úthlutunarnefnd og síðan umsækjanda.

16. Úthlutunarnefnd sjóðsins skal í lok árs gera stutta samantekt yfir starf ársins ásamt yfirliti styrkja.

17. Reglur þessar voru samþykktar á fundi stjórn starfsmenntunarsjóðs LSS þann 26.04.2017. Úthlutunarnefnd sjóðsins getur breytt reglum þessum og er heimilt að víkja frá framangreindum skilyrðum ef sérstaklega stendur á.

Reykjavík 27. apríl 2017