Eldvarnaátakið


Eldvarnaátakið – aukum eldvarnir og öryggi

 

Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna fer fram um allt land í lok nóvember ár hvert. Slökkviliðsmenn heimsækja þá börnin í 3. bekk grunnskólanna og fræða þau um eldvarnir. Börnin fá með sér heim handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins og söguna af Brennu-Vargi og Loga og Glóð. Þeim gefst jafnframt kostur á að taka þátt í Eldvarnagetrauninni en heppnir þátttakendur í henni fá jafnan afhent vegleg verðlaun á 112-deginum, 11. febrúar.

 

LSS hefur látið framleiða teiknimyndina um ævintýri Loga og Glóðar – Brennu-Vargur. Myndin fjallar um baráttu Loga og Glóðar við hinn illgjarna Brennu-Varg og hvernig þau leystu ráðgátuna um tíða eldsvoða sem geisuðu í Bænum í aðdraganda jólanna. Teiknimyndin er hluti af fræðsluefni LSS um eldvarnir.

 

Landssambandið hefur um langt árabil lagt áherslu á forvarnastarf og hefur haldið

Eldvarnaátakinu úti með dyggum stuðningi fjölmargra aðila í rúma tvo áratugi. Það er því gleðilegt að geta greint frá því að samkvæmt rannsóknum sem Gallup hefur gert fyrir landssambandið og Eldvarnabandalagið skilar fræðsla af þessu tagi greinilegum árangri.

 

Gallup hefur kannað ástand eldvarna á heimilum landsmanna á tveggja ára fresti frá árinu 2006 og þróunin er ótvíræð; heimilin auka eldvarnir sínar jafnt og þétt. Æ færri hafa engan eða bara einn reykskynjara en að sama skapi fjölgar þeim til muna sem hafa þrjá eða fleiri.

Mun algengara er nú en fyrir tíu árum að slökkvitæki og eldvarnateppi séu á heimilum. Í könnun sem gerð var haustið 2018 kom fram að helmingur heimila er með allt í senn reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi en það er einmitt það sem okkar menn mæla með. Við eigum verk að vinna en þessar niðurstöður hvetja okkur sannarlega til dáða.

 

Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Mannvirkjastofnun, TM, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Neyðarlínan, Valitor, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og slökkviliðin í landinu.

 

Umsjón og framkvæmd með Eldvarnaátaki LSS hafa eftirtaldir: Garðar H. Guðjónsson, gaji (hjá) mmedia.is og Guðrún Hilmarsdóttir verkefnastjóri.

 

 

eldvarnagetraun

Eldvarna getraunin

Við biðjum foreldra og forráðamenn vinsamlegast að ræða efni hverrar spurningar með barninu og setja í samhengi við aðstæður þess um leið og spurningunni er svarað

Hefja eldvarnagetraun
LSOS merki
HMS merki
112 merki
SHS merki
TM merki
EBÍ merki
QR kóði