Lífeyrismál - Spurt og svarað


Spurt og svarað vegna fyrirhugaðra breytinga á A-deildum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs

Hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á lífeyrismálum opinberra starfsmanna?

Stefnt er að því að samræma lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Fyrirhugaðar breytingar eiga einungis við A-deildir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Brúar lífeyrissjóðs. B-deildir og V-deild eru óbreyttar. Í þessu felst að reglur um ávinnslu réttinda munu breytast. Í stað jafnrar ávinnslu réttinda yfir starfsævina mun réttindaávinnsla verða aldurstengd og viðmiðunaraldur verður 67 ár. Þessar breytingar munu taka gildi frá og með 1. júní 2017 og leiða af breytingu á lögum sem Alþingi samþykkti í desember s.l. Núverandi sjóðfélagar í A-deildum LSR og Brúar munu halda óskertum réttindum og breytingarnar hafa ekki áhrif á þá sem eru í B-deildum sjóðanna.

Hvað þýðir annarsvegar jöfn ávinnsla réttinda og hinsvegar aldurstengd ávinnsla réttinda?

Með jafnri ávinnslu er átt við að ávinnsla greiddra iðgjalda er jöfn yfir starfsævina, óháð aldri. Þannig fær hver greiðandi sömu réttindi, án tillits til aldurs. Með aldurstengdri ávinnslu er átt við að réttindi taki mið af aldri sjóðfélaga. Iðgjöld yngri sjóðfélaga eru verðmætari því þau eiga eftir að ávaxtast yfir lengri tíma. Þannig njóta yngri sjóðfélagar ávinnings af því hve lengi þeirra iðgjöld eiga eftir að ávaxtast. Réttindi sjóðfélaga verða því í samræmi við verðmæti iðgjaldanna sem þeir greiða.

Skerðast lífeyrisréttindi núverandi félagsmanna í A-deildum LSR og Brúar?

Nei, ekki verður gerð breyting á réttindum sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar við upptöku á nýju réttindakerfi. Réttindi þeirra verða tryggð með framlögum úr sérstökum lífeyrisaukasjóðum og varúðarsjóði. Í þessu felst að sjóðfélagar sem greiddu A-deildir LSR og Brúar einhvern tíma á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017, eiga rétt á svokölluðum lífeyrisauka. Lífeyrisaukinn verður notaður til að bæta þann mismun sem verður á útreikningi á réttindum þeirra miðað við aldurstengda ávinnslu og jafna ávinnslu ásamt hækkun viðmiðunaraldurs lífeyristöku úr 65 í 67 ár. Sérreglur um lífeyristökualdur lögreglumanna verða áfram í gildi.

Sjóðfélagar sem ekki greiddu í sjóðinn á tímabilinu 1. júní 2016 – 1. júní 2017 en eru enn í formlegu ráðningarsambandi eiga einnig rétt til lífeyrisauka. Þá er sjóðnum heimilt að framlengja framangreint tímabil um 12 mánuði vegna náms, veikinda eða fæðingarorlofs sjóðfélaga. Sjóðfélagar sem eiga rétt til lífeyrisauka halda þeim rétti þó þeir skipti um starf, að því gefnu að starfið veiti rétt til aðildar að A-deildar LSR eða Brúar.

Hækkar lífeyristökualdur þeirra sem nú starfa hjá hinu opinbera úr 65 árum í 67?

Sjóðfélagar í A-deildum LSR og Brúar geta hafið töku lífeyris hvenær sem er á aldrinum 60 til 70 ára. Þetta verður óbreytt í nýju kerfi. Viðmiðunaraldur til útreiknings lífeyris hækkar úr 65 árum í 67. Sú breyting hefur ekki áhrif á réttindi núverandi sjóðfélaga LSR og Brú. Lífeyrisgreiðslur til þeirra verða þær sömu og þær hefðu verið fyrir breytinguna en þeir eiga möguleika á að vinna til 70 ára aldurs og auka enn við réttindi sín.

Af hverju verður viðmiðunaraldur lífeyristöku opinberra starfsmanna hækkaður úr 65 árum í 67 ár?

Meginmarkmið samkomulagsins er að samræma lífeyriskerfið hér á landi svo að allt launafólk njóti sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Með þessu er stuðlað að auknum hreyfanleika milli vinnumarkaða. Á almennum vinnumarkaði er lífeyristökualdur 67 ár. Núverandi sjóðfélögum verður þó bætt hækkun lífeyristökualdurs þannig að þeir geti farið á óbreyttan lífeyri 65 ára.

Hvernig verða laun á opinberum- og almennum markaði jöfnuð?

Heildarsamtök opinberra starfsmanna og fulltrúar opinberra launagreiðenda munu þróa aðferðarfræði til greiningar á launamun. Því næst verður ákveðið í hvaða tilfellum þurfi að leiðrétta launamun einstakra hópa og gerð áætlun um launajöfnun. Hún mun fara fram á grundvelli kjarasamninga.

Hvenær verða laun á opinberum- og almennum markaði jöfnuð?

Jöfnun launa skal náð með útfærslu í kjarasamningum á 6-10 árum.

Hvernig virkar bakábyrgð launagreiðanda vegna A-deilda LSR og Brúar í dag?

Launagreiðendur bera ekki beina bakábyrgð á A-deildum með sama hætti og gildir um B-deildirnar. Launagreiðendur bera ekki ábyrgð á skuldbindingum A-deildar nema með iðgjöldum sínum. Ef A-deildirnar eiga ekki fyrir skuldbindingum sínum skal hækka mótframlag launagreiðanda.

Verður hin óbeina bakábyrgð launagreiðanda áfram til staðar?

Samhliða fullri fjármögnun skuldbindinga verður ábyrgð launagreiðenda á réttindum í A-deildum LSR og Brúar afnumin.
Sérstakar reglur gilda um þá sem náð hafa 60 ára aldri fyrir 1. júní 2017. Þeir sjóðfélagar sem eiga réttindi í A-deild og hafa náð 60 ára aldri fyrir 1. júní 2017 munu áfram hafa rétt til sambærilegrar tryggingar og óbeina bakábyrgðin felur í sér. Þessi trygging felur í sér að komi til þess í ljósi tryggingafræðilegrar stöðu A-deildar að rétt sé að skerða eða auka réttindi skuli slíkar breytingar ekki taka til þeirra sem eiga réttindi í A-deild og hafa náð 60 ára aldri fyrir gildistöku nýrra samþykkta sem er 1. júní n.k. Fjárhagsleg áhrif slíkra breytinga skulu gerðar upp með samningi A-deildar LSR við ríkissjóð en við launagreiðendur viðkomandi starfsmanna hvað varðar Brú.

Hvað kemur í stað hinnar óbeinu bakábyrgðar launagreiðanda?

Réttindi núverandi sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar eru tryggð með framlagi ríkis og sveitarfélaga í sérstaka lífeyrisaukasjóði og til að greiða upp þegar áfallnar lífeyriskuldbindingar. Það nemur samtals tæplega 154 milljörðum króna. Þessi greiðsla er sambærileg við núvirði þeirra skuldbindinga sem ella myndu falla á ríki og sveitarfélög síðar. Að auki verða um 11 milljarðar króna lagðar til í sérstaka varúðarsjóði sem ætlað er að styðja við lífeyrisaukasjóðina svo þeir geti staðið undir skuldbindingum sínum. Komi í ljós síðar að þessi fjárhæð dugi ekki til eru launagreiðendur skuldbundnir að taka upp viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna um hvernig við því skuli brugðist.

Af hverju á að leggja 154 milljarða inn í lífeyrissjóðina? Hvernig var sú tala fundin út?

Með þessari fjárhæð er bæði halli á tryggingafræðilegri stöðu sjóðanna og sá halli sem samkvæmt mati tryggingafræðinga er á framtíðarstöðu jafnaður.

Af hverju þarf að leggja peninga inn í LSR vegna breytinganna?

Til að tryggja að núverandi sjóðfélagar haldi jafnverðmætum réttindum eftir breytingarnar þurfti ríkissjóður að leggja A-deild LSR til 106,8 milljarða eingreiðslu. Auk þess þurfti ríkissjóður að greiða 10,4 milljarða króna til að koma áfallinni stöðu deildarinnar í jafnvægi miðað við árslok 2016. Með þessu er því reynt að koma í veg fyrir að A-deild lendi í halla.

Af hverju er mikilvægt að jafna lífeyrisréttindi almennra- og opinberra starfsmanna?

Svo að allir búi við samræmt fyrirkomulag í lífeyrismálum og geti fært sig milli lífeyrissjóða hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi áhrif á réttindaávinnslu.
Þá var ljóst að til breytinga þurfti að koma til að tryggja að LSR og Brú verði í jafnvægi þar sem framtíðarskuldbindingar þeirra eru neikvæðar. Ef viðhalda hefði átt óbreyttu kerfi hefði þurft að hækka iðgjald launagreiðenda úr 11,5% í u.þ.b. 17% og heildariðgjaldið færi þannig í u.þ.b. 21% af heildarlaunum. Þannig hefði heildarlaunakostnaður launagreiðanda vegna starfsmanna hækkað um u.þ.b. 5,5%.

Hefur breytingin einhver áhrif á lífeyrisréttindi þeirra sem eru í B-deild LSR og Brúar?

Nei, fyrirhugaðar breytingar taka eingöngu til A-deilda lífeyrissjóðanna.

Hvenær eiga breytingar á A-deild LSR og Brúar að taka gildi?

Breytingar á ávinnslu sjóðfélaga A-deildar LSR og Brúar taka gildi 1. júní 2017. Sjóðfélagar sem greiða í sjóðinn fram að þeim tíma halda sínum réttindum og óbreyttur réttindaávinningur í framtíðinni er tryggður með lífeyrisauka.

Hvað er lífeyrisauki?

Lífeyrisaukinn á að bæta núverandi sjóðfélögum A-deildanna þann mismun sem er á annars vegar réttindum þeirra samkvæmt núverandi kerfi, sem byggir á jafnri réttindaávinnslu og viðmiðun við 65 ára lífeyristökualdur, og hins vegar réttindum þeirra samkvæmt breyttu kerfi sem byggir á aldurstengdri réttindaávinnslu og viðmiðun við 67 ára lífeyristökualdur.

Hverjir eiga rétt á lífeyrisauka?

Þeir sjóðfélagar sem starfa hjá ríki eða sveitarfélögum og hafa greitt til A-deilda LSR eða Brúar einhvern tímann á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017 eiga rétt á lífeyrisauka. Einnig þeir sem ekki hafa greitt iðgjöld til sjóðsins á tímabilinu 1. júní 2016- 1.júní 2017 en eru enn í ráðningarsambandi við atvinnurekanda sem færði þeim rétt til aðildar að A-deild LSR og Brúar. Sjóðunum er heimilt að framlengja þetta tímabil um tólf mánuði til viðbótar vegna náms, fæðingarorlofs eða veikinda.

Ég starfa ekki hjá ríki né sveitarfélögum en hef engu að síður greitt í A-deild LSR. Munu réttindi mín verða skert?

Sjóðfélagar sem greiða í A-deild einhvern tímann á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017 en starfa hjá öðrum launagreiðendum en ríki og sveitarfélögum eiga rétt á lífeyrisauka ef launagreiðandi þeirra samþykkir að greiða sérstakt iðgjald fyrir þá.

Ég hef greitt í A-deild Brúar lífeyrissjóðs og á rétt til lífeyrisauka þar. Ég mun fljótlega skipta um starf og á þá að greiða til A-deildar LSR. Munu réttindin mín þá skerðast?


Sjóðfélagar Brúar sem rétt eiga á lífeyrisauka munu eiga rétt á lífeyrisauka hjá A-deild LSR skipti þeir um starf og verði sjóðfélagar þar. Þó má ekki hafa liðið lengri tími en tólf mánuðir á milli starfa. Sambærilegt ákvæði verður í samþykktum Brúar sem felur í sér sambærilegan rétt skipti sjóðfélagar um starf og færa sig frá LSR til Brúar.

Hvað gerist ef ég tek mér árs leyfi frá störfum? Held ég þá óskertum réttindum?

Þeir sjóðfélagar sem eru í ráðningarsambandi á á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017 eiga sama rétt og aðrir til lífeyrisauka, þ.e. jöfnunar á réttindum. Í samþykktum sjóðanna verður ákvæði sem heimilar að sjóðfélagar haldi réttindum sínum í 24 mánuði ef iðgjaldagreiðslur falla niður t.d. vegna veikinda, náms eða fæðingarorlofs.

Ef ég fer að vinna á almennum vinnumarkaði og hætti þar með að greiða í LSR eða Brú en sný til baka til hins opinbera eftir tólf mánuði eða meira. Held ég þá óskertum réttindum?

Nei, þá fellur réttur til lífeyrisauka niður. Þú heldur þó áunnum réttindum fyrir þann tíma sem þú áttir rétt á lífeyrisaukanum.

Ég vinn hjá fyrirtæki á almenna vinnumarkaðnum en hef alltaf greitt í A-deild LSR. Mun ég geta greitt áfram í A-deild eftir breytingar á A-deild?

Allir þeir sem eiga eða hefðu átt aðild að A-deild fyrir 1. júní 2017 munu áfram eiga rétt til aðildar að A-deild LSR þar til samið hefur verið um lífeyrissjóðsaðild í kjarasamningum.

Mun iðgjald mitt til A-deildar LSR/Brúar lífeyrissjóðs verða hækkað vegna breytinganna?

Nei, iðgjald þitt verður eftir sem áður 4%.

Mun mótframlag atvinnurekanda vegna iðgjalda hækka vegna breytinganna?

Launagreiðendur greiða áfram 11,5% mótframlag til LSR þar til iðgjald hefur verið ákveðið í kjarasamningum. Mótframlag atvinnurekanda í A-deild Brúar lífeyrissjóðs mun lækka úr 12% niður í 11,5%. Þeir launagreiðendur sem eru á almennum vinnumarkaði og samþykkja að greiða lífeyrisauka vegna áframhaldandi aðildar starfsmanna þeirra að LSR skulu greiða 17,35% mótframlag.

Munu réttindi vegna örorkulífeyris verða skert?


Nei, réttindi núverandi sjóðfélaga verða óbreytt. Hjá nýjum sjóðfélögum er meginbreytingin að varpa þarf réttindum yfir í nýtt kerfi þar sem ávinnsla er með öðrum hætti en skilyrði til að öðlast réttindi eru þau sömu. Sjóðfélagi hjá A-deild LSR eða Brú á rétt á örorkubótum ef hann hefur verið metinn 40% öryrki og greitt til sjóðsins í a.m.k. tvö ár.

Munu réttindi vegna makalífeyris verða skert?


Nei, réttindi núverandi sjóðfélaga verða óbreytt. Hjá nýjum sjóðfélögum er meginbreytingin að varpa þarf réttindum yfir í nýtt kerfi þar sem ávinnsla er með öðrum hætti en skilyrði til að öðlast réttindi eru þau sömu. Eftirlifandi maki sjóðfélaga LSR og Brúar sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum, eða hafði greitt iðgjald til hans a.m.k. 6 mánuði á undanförnum 12 mánuðum, á rétt á lífeyri úr sjóðnum. Fullur makalífeyrir skal greiddur í 36 mánuði og 50% makalífeyrir í 24 mánuði til viðbótar.

Munu réttindi vegna barnalífeyris verða skert?

Nei, rétturinn til barnalífeyris verður óbreyttur. Við fráfall sjóðsfélaga sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins eða notið úr honum örorkulífeyri í sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum, eiga börn hans rétt á lífeyri úr sjóðnum til 22 ára aldurs. Fullur mánaðarlegur barnalífeyrir vegna andláts er 25.172 kr. með hverju barni á mánuði hjá LSR en 25.337 kr. hjá Brú. Fullur mánaðarlegur barnalífeyrir vegna örorku er 18.927 kr. hjá LSR en 19.003 kr. hjá Brú. Fjárhæðir miða við apríl 2017.

Ég er lögreglumaður. Verður breyting á reglum um lífeyristökualdur?

Nei, sú sérregla sem gildir um lögreglumenn verður óbreytt. Öllum lögreglumönnum sem eru leystir frá embætti sínu við 65 ára aldur skal reiknaður ellilífeyrir eins og þeir hefðu starfað til 70 ára aldurs.

 

Texti þessi birtist upphaflega á síðu BSRB og er birtur hér með þeirra leyfi.