Um LSS


Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna eru heildarsamtök framangreindra starfsstétta. Fagfélagið Landssamband slökkviliðsmanna L.S.S. var stofnað þann 12. maí 1973. Stofnfundinn sátu 73 félagar frá 22 slökkviliðum víðsvegar að af landinu. Félagið var samband Brunavarðafélaga.

Fagstéttarfélagið Landssamband slökkviliðsmanna LSS, var stofnað þann 2 maí árið 1992 í Munaðarnesi í Borgarfirði. Stofnun félagsins byggði á grunni félags slökkviliðsmanna sem bar sama nafn og tók við skuldbindingum þess. Félagsformið grundvallast á einstaklingsaðild að fagstéttarfélaginu.

Fyrir stofnun fagstéttarfélagsins 1992 voru slökkviliðsmenn sem höfðu starfið að aðalstarfi í bæjar- og ríkisstarfsmannafélögum sem fóru með kaup og kjör þeirra fram til þess að LSS undirritaði sinn fyrsta kjarasamning í júní árið 1994. Gamla fagfélagið hafði í sinni tíð komið fyrst og fremst að fag ? og öryggismálum auk þess að gefa út svokallaða launatöflu fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn á landsbyggðinni í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Þann 15. maí árið 1999 var Landssamband sjúkraflutningamanna sameinað LSS undir núverandi nafni Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. LSS varð 39 aðildarfélag BSRB í október árið 1993.

Forvarnastarf LSS Samtökin hafa rekið öflugt forvarnastarf á undangengnum árum. Brunavarnaátak á sér forsögu aftur til ársins 1985. Frá árinu 1991 hefur Brunavarnaátak LSS verið þróað sem samstarfsverkefni LSS, slökkviliðanna og grunnskóla landsins. Á þessu ári mun Brunamálastofnun koma með formlegum hætti að verkefninu. Þúsundir skólabarna taka árlega þátt í samræmdri eldvarnafræðslu slökkviliðsmanna og heimsóknum á slökkvistöðvar. Brunavarnaátak er fjármagnað af LSS með öflun styrktarfés velunnara átaksins.

Sérstök Forvarna- og fræðsludeild LSS var sett á laggirnar árið 1991 sem hefur haft það verkefni að bjóða fyrirtækjum og stofnunum fræðslu í eldvörnum sem þrautreyndir slökkviliðsmenn annast.