Starfsmenn hjá SHS álykta um mönnunarmál

Starfsmenn SHS krefjast þess að stjórn SHS tryggi fjármagn til að fækkun á starfsmönnum geti gengið til baka strax og að unnið verði að því að efla slökkviliðið á grundvelli þeirrar þjónustu sem því ber að sinna; slökkvi- og björgunarstarfi, ásamt sjúkraflutningum og forvarnarstarfi.

 

Fækkun hefur orðið á vöktum hjá SHS vegna sparnaðar.  Um er að ræða fækkun á grunnmönnun um 2 menn, ásamt því að fækkað er sjúkrabifreiðum sem hafa verið í umferð á álagstímum.   Þetta getur þýtt að það sé allt að fjórum mönnum færri á vakt en áður, en fjórir menn þýða í raun tvær sjúkrabifreiðar.  Auk þess hefur nýráðningum á forvarnarsviði verið frestað.

Fækkunin kom starfsmönnum algjörlega í opna skjöldu, enda hefði frekar þurft að fjölga starfsmönnum en fækka þeim. Starfssvæði slökkviliðsins hefur stækkað, starfsstöðvum fjölgað og álag aukist jafnt og þétt í sjúkraflutningum. Vonir starfmanna stóðu til að fjölgað yrði í kjöfar endurnýjunar á samningi um sjúkraflutninga við ríkið, til að vega upp á móti þeirri fjölgun verkefna sem orðið hafa.  Kröfur um aukin gæði og trygga þjónustu, aukast stöðugt.

Starfmenn SHS meta það þannig að mönnun sé komin niður fyrir hættumörk. Álag er orðið of mikið og lýkur á því að ekki verði hægt að sinna öllum útköllum, eða að þeim verði sinnt með of fáum mönnum eða jafnvel utan ásættanlegra tímamarka. Sú staða kemur oft upp að slökkvibílar eru ekki fullmannaðir þegar útkall berst og æ oftar kemur upp að 1 slökkviliðsmaður komi á vettvang á slökkvibíll. Þetta hefur ekki eingöngu áhrif á gæði þjónustunnar, heldur einnig öryggi starfsmanna og íbúa. 

Það skýtur skökku við að á sama tíma og unnið er að því að finna lóð fyrir nýja starfsstöð til að bæta viðbragðstímann á ákveðnum svæðum á höfuðborgarsvæðinu, fari mönnun á nýrri stöð við Skarhólabraut í Mosfellsbæ úr fjórum mönnum niður í tvo, eða eina sjúkrabifreið. Til að bæta viðbragðstíma er ekki nægjanlegt að byggja starfsstöðvar, það þarf einnig að manna þær með tilliti til þess að frá þeim verði sinnt, bæði slökkvistarfi og sjúkraflutningum.

 

Fyrir hönd slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hjá SHS.

 

     ____________________________________________
     Ragnar Guðmundsson 1. trúnaðarmaður LSS hjá SHS