Ályktun frá LSS, LL, SLFÍ, TÍ og FVFÍ.

Reykjavík 26. september 2016 , til þingmanna


Ályktun Fangavarðafélags Íslands, Landssambands lögreglumanna,

Landssambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna, 

Sjúkraliðafélags Íslands og Tollvarðafélags Íslands

 

Stjórnir FVFÍ, LL, LSS, SLFÍ og TFÍ fara fram á það við þig þingmaður góður að þú kynnir þér vel  þann samning sem nú liggur fyrir undirritaður af BSRB, BHM og KÍ um breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. 

Samningur þessi er ekki gerður með samþykki félagsmanna eða stjórna þessara félaga.  Samningurinn skerðir lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna til framtíðar verulega, starfsævin verður lengd og ábyrgð vinnuveitanda á sjóðnum verður afnumin, án þess að gengið hafi verið frá því að laun verði leiðrétt. 

Stærsti hópur félagsmanna ofangreindra félaga er vaktavinnufólk sem vinnur við afar krefjandi störf í þágu almennings.  Fjölmargar rannsóknir, bæði innlendar og erlendar sýna fram á að vaktavinnufólk lifir að jafnaði skemur en þeir sem vinna venjubundin dagvinnustörf.  Sakir erfiðis og álags þeirra starfa sem félagsmenn ofangreindra félaga sinna er það ljóst að lenging starfsævinnar umfram það sem nú er að finna í lögum mun leiða til skertra lífsgæða meðal þessara hópa og aukins kostnaðar þjóðfélagsins til lengri tíma litið.

 

Viljum einnig benda á hið svokallaða 10 punkta skjal sem unnið var sameiginlega af báðum aðilum þessa gjörnings og ekkert hefur verið gert með.  Í því skjali kemur m.a. fram að:

Staða hópa sem kunna að hafa sérstöðu hvað varðar lífeyristökualdur verður skoðuð sérstaklega.

 • Sérstaklegaverði unnið að því að jafna laun einstakra hópa milli almenns og opinbers vinnumarkaðar. Skal það gert með því að taka upp sérstakt launajöfnunarálag. Launajöfnunarálagið skal fundið út sem ákveðið hlutfall af launaskriðstryggingunni (eða með annarri aðferð) og greiðist sem viðbót við hana.Launajöfnunarálagið skal greiðast jafnt til heildarsamtaka opinberra starfsmanna og greiðast til þeirra hópa sem á hverjum tíma þurfa mestu leiðréttinguna við samkvæmt mati samningsaðila.

 • Staða þeirra einstaklinga sem greiða í A-deildir LSR/LSS og ekki eru í starfi hjá ríki, sveitarfélögum verður skoðuð sérstaklega.

 • Ef lífeyrisréttindi á milli markaða yrðu samræmd færi jafnframt fram greining á launamun á milli markaða og laun hækkuð hjá opinberum starfsmönnum.

  Í samningnum eru skerðingar á réttindum/kjörum opinberra starfsmanna frágengnar og tímasettar, en allar leiðréttingar/bætur eiga kannski/hugsanlega að koma síðar.  Sporin hræða þegar slík loforð eru ekki fastari í hendi, en er í þessum samningi.

   

  Því er farið fram á að þú þingmaður góður gerir það sem í þínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að fyrirhugaðar breytingar nái fram að ganga.

   

  Fangavarðafélag Íslands

  Landssamband lögreglumanna

  Landssamband slökkvilið- og sjúkraflutningamanna

  Sjúkraliðafélag Íslands Tollvarðafélag Íslands.