Mynd - Greinargerð vegna EFFUA fundar

Greinargerð vegna EFFUA fundar

Haldinn var aðalfundur stjórnar hjá European fire fighter union alliance (EFFUA) í Brussel 23. og 24. nóvember síðastliðinn. Þrír fulltrúar Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sóttu þann fund Stefán Pétursson formaður LSS, Jón Pétursson formaður fagdeildar slökkviliðsmanna LSS og Njáll Pálsson formaður fagdeildar sjúkraflutningamanna LSS.

Fram til þessa höfðu Sverrir Björn Björnsson fyrrverandi formaður LSS og Finnur Hilmarsson fyrrverandi varaformaður LSS gegnt trúnaðarstörfum í íslandsdeild EFFUA en létu nýverið af þeim störfum. Þeim eru færðar góðar þakkir fyrir þeirra framlag og góð störf í þágu deildarinnar. Án þess grunnar sem þeir lögðu værum við ekki þáttakendur í þessu mikilvæga starfi.

EFFUA vinnur þarft og mikilvægt starf fyrir evrópska slökkviliðsmenn. Aðild Íslands er gríðarlega mikilvæg í þessum efnum. Fundurinn var í alla staði góður og fróðlegur.

Mörg heit málefni bar á góma sem eru okkur líkt og evrópskum kollegum okkar hugleikin.

Fyrst ber þar að nefna krabbamein. Mikið gott starf hefur verið unnið bæði hér heima og erlendis í vitundarvakningu meðal slökkviliðsmanna um þann skæða vágest. Jafnframt hefur verið unnið ötullega að úrbótum í starfsumhverfi slökkviliðsmanna svo minnka megi áhættu á að þeir veikist af þeim skæða sjúkdómi. Enn er þó langt í land og voru skilaboð fundarins skýr að þeirri vinnu verður að fylgja fast eftir. Menn ræddu í því sambandi þá nálgun sem tíðkast nú víða hvað hreinlæti varðar og aðstöðu til þrifa á slökkvistöðvum. Vinna verður meira að því.

Annað er sálrænn stuðningur, félagastuðningur og áfallastreita. Það er viðkvæmt málefni en þörfin á úrbótum þar sem og efling þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin er brýnni en orð fá lýst. Það var einkar ánægjulegt að geta kynnt evrópskum félögum okkar nýafstaðna ráðstefnu hér heima hvað þau málefni varðar með aðkomu LSS auk allra þeirra aðila er starfa í neyðarþjónustu á Íslandi. Stefnt er að frekari vinnu hvað þetta varðar og dýrmætt að LSS skuli geta lagt þar stóran skerf að borðinu, enda málefnið oft á tíðum vanmetið.

Önnur mál sem rædd voru:

Ýmsar leiðir til úrbóta á starfsumhverfi slökkviliðsmanna með tilliti til ofangreindra þátta, álags á stoðkerfi og almennrar heilsu.

Hvernig nýta megi tölfræði okkur í hag, skráning slysa og annarra ógna s.s. ofbeldisógnar og nálægð við hættuleg efni. Tíðni krabbameins meðal slökkviliðsmanna og hvernig megi nýta þær upplýsingar/staðreyndir til sönnunar þess að um raunverulega ógn sé að ræða og hvort skilgreina megi krabbamein hreinlega sem atvinnusjúkdóm. Hjá Evrópusambandinu liggur fyrir staðfesting þess t.a.m. að kolanámumenn og hárgreiðslufólk/skerar eru í mikilli áhættu á að veikjast af krabbameini sökum nálægðar við hættuleg og krabbameinsvaldandi efni.

Ákveðið var að EFFUA myndi búa til leiðbeiningar/staðla fyrir „slökkvistöð framtíðarinnar“. Slökkvistöð sem myndi uppfylla öll þau skilyrði sem þarf fyrir bætt og öruggt starfsumhverfi slökkviliðsmanna. Það er allra hagur að slökkviliðsmönnum líði vel og finni til öryggis. Ef það tekst þá aukast gæði og öryggi þjónustunnar.

Einnig var ákveðið að leita leiða til að ná samstarfi við mögulega stuðnings- og styrktaraðila fyrir EFFUA. Um væri þá að ræða burðug samtök sem átt gætu samlegð með EFFUA án þess að hlutleysi væri ógnað. Þetta væri vel við hæfi og mikilvægt til eflingar enda hafa slökkviliðsmenn margt til málanna að leggja í hinum ýmsu málum. Nú þegar hafa náðst samningar um slíkt samstarf við evrósk samtök sements/steypu framleiðenda CEMBUREAU (the European Cement Association), BIBM (the European Federation of Precast Concrete), ERMCO (the European Ready-Mix Concrete Organisation) og UEPG (European Aggregates Association). Þetta samstarf felur m.a. í sér þverfaglega samvinnu varðandi bætt öryggi bygginga, eldvarna og öryggis Evrópubúa, menntunar, þjálfunar og öryggis slökkviliðsmanna í Evrópu.

Eitt mikilvægt atriði var til umræðu en það er með hvaða hætti við getum styrkt og aukið tengingar okkar inn í stjórnkerfi bæði heimalanda og Evrópu. Það er nauðsynlegt að hafa gott og skilvirkt samband við bæði stjórnmála- og embættismenn á hinum ýmsu stjórnsýslustigum til að liðka fyrir framgangi og framþróun þeirra málaflokka sem undir okkur heyra og við tengjumst.

Íslandsdeildin vakti sérstaklega máls á þætti og aðkomu sjúkraflutningamanna í samtökunum og hvernig mætti efla hana. Því var vel tekið enda er samlegð slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna nokkuð algeng hjá aðildarríkjum samtakanna. Ákveðið var að formaður fagdeildar sjúkraflutningamanna LSS tæki að sér að huga sérstaklega að þeim þætti í nánu samstarfi við formann og framkvæmdastjóra EFFUA. Það fer vel á því þar sem það er skýr stefna að stjórn LSS vill auka og styrkja alþjóðlegar tengingar og samstarf. Horfa má í því sambandi til hnattstöðu Íslands og fyrirséð mikilvægi landsins í neyðar- og björgunarþjónustu, sérstaklega með tilliti til norðurslóða. Þar munu slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn gegna lykilhlutverki ásamt öðrum aðilum neyðarþjónustu. Jafnframt þurfa sjúkraflutningamenn ásamt öðrum viðbragðsaðilum oft að takast á við svipaðar áskoranir og slökkviliðsmenn í sínum störfum.

Rætt var um mikilvægi menntunar og þjálfunar. Einnig hvernig við gætum unnið að samræmingu staðla og löggildinga/starfsleyfa þ.a. slökkviliðsmenn gætu fengið menntun sína metna, hyggi þeir á búferlaflutninga milli landa og gætu þannig átt kost á að vinna áfram í sínu fagi. Þetta er afar mikilvægt og voru fundarmenn sammála um það.

Grikkland gerðist félagi í samtökunum á fundinum og jafnframt sat fulltrúi frá Spáni fundinn en Spánn er í umsóknarferli. Það er ánægjulegt þar sem það bæði eflir og styrkir að fjölga aðildarlöndum.

Fulltrúar Íslands voru ánægðir með fundinn einsog fram hefur komið. Það er ljóst að vera okkar í þessum samtökum er mikilvæg. Öflugt alþjóðlegt samstarf ásamt öflugu starfi á heimavelli eru einar af grundvallarforsendum framþróunar, eflingar og velferðar okkar.

Stefán Pétursson formaður LSS
Njáll Pálsson formaður fagdeildar sjúkraflutningamanna LSS 
Jón Pétursson formaður fagdeildar slökkviliðsmanna LSS og fulltrúi LSS í stjórn Effua