Eldvarnaátak 2017

Slökkviliðsmenn hefja eldvarnaátak í aðdraganda aðventunnar

 

Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefst fimmtudaginn 23. nóvember og stendur fram í aðventubyrjun. Slökkviliðsmenn heimsækja þá börnin í 3. bekk grunnskólanna um allt land og fræða þau um grunnatriði eldvarna nú í aðdraganda aðventunnar. Þeir gera börnunum grein fyrir aukinni eldhættu á aðventunni vegna mikillar notkunar kerta- og rafmgnsljósa og brýna fyrir þeim mikilvægi þess að nauðsynlegur eldvarnabúnaður sé á hverju heimili. Þá er átt við reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Börnin eru einnig minnt á neyðarnúmerið 112.

 

Eldvarnaátakið hefst með setningarathöfn í Sunnulækjarskóla á Selfossi fimmtudaginn 23. nóvember kl. 10.10. Þegar börnin hafa fengið fræðslu um eldvarnir fer brunaviðvörunarkerfi í gang og rýming skólans verður æfð í samvinnu við Brunavarnir Árnessýslu. Að því búnu gefst starfsfólki kostur á að æfa notkun slökkvitækja.

 

Í heimsóknum sínum í grunnskólana afhenda slökkviliðsmenn börnunum söguna af Brennu-Vargi en í henni er að finna svörin við Eldvarnagetrauninni sem börnunum býðst að taka þátt í. Dregið er úr réttum lausnum og fær fjöldi barna vegleg verðlaun sem afhent verða á 112-deginum, 11. febrúar. Börnin fá einnig handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins og fleiri gjafir. LSS nýtur stuðnings fjölmargra aðila svo unnt sé að ráðast í Eldvarnaátakið. Helstu stuðningsaðilar átaksins eru Mannvirkjastofnun, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, TM, 112, SHS og slökkviliðin í landinu.

 

Rannsóknir sem Gallup hefur gert fyrir LSS og Eldvarnabandalagið sýna að forvarnastarf af þessu tagi skilar árangri. Heimilin efla eldvarnir sínar jafnt og þétt en betur má ef duga skal. Alltof margir hafa engan eða aðeins einn reykskynjara á heimilinu og aðeins um helmingur heimila hefur allt í senn reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi.

 

 

 

Hér má sjá fréttagrein frá Brunavörnum Árnessýslu.

Hér má sjá umfjöllun frá stöð 2.

Hér má sjá umfjöllun frá Sunnlenska