18.þing LSS - fréttir

18. þing LSS

Þann 24. september sl. var 18. þing LSS í fyrsta skipti haldið í gegnum fjarfundabúnað. Stjórnarmenn og starfsmenn þingsins voru flestir í fundarsal BSRB, Grettisgötu 89 í Reykjavík, þar sem fundarstjóri stýrði þingi. Gildandi sóttvarnareglur voru hafðar að leiðarljósi við skipulagningu þingsins. Starfsmenn þingsins héldu utan um rafræna kosningakerfið. Þingið var opið öllum í gegnum fjarfundabúnað og hátt í 90 félagsmenn tóku þátt. Breytingar voru gerðar á hefðbundinni fundardagskrá og til að mynda voru aðalfundir fagdeilda lagðar niður á þessu þingi og störf þeirra færð inn á þingið sjálft og sömuleiðis öll nefndarstörf og tók því nefndanefnd ekki til starfa á þessu þingi. Þingið tók fimm klukkustundir og er þetta líklega stysta þing sem LSS hefur haldið.

Helstu niðurstöður þingsins

Ný stjórn:

Ný stjórn var kjörin á þinginu. Magnús Smári Smárason, slökkviliðsmaður, bráðatæknir og lögfræðingur var sjálfkjörinn sem formaður félagsins. Hann hafði gegnt embætti formanns frá 5. júní 2018 eftir að fv. formaður sagði af sér. Magnús Smári var fyrst kjörinn í stjórn árið 2016. Bjarni Ingimarsson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður var kjörinn varaformaður félagsins. Hann hefur ekki setið í stjórn áður en hefur sinnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir félagið og verið fyrsti fulltrúi hjá  SHS.

Aðrir í stjórn eru:

Anton Berg Carrasco, SA, meðstjórnandi

Ásgeir Þórisson, BS, meðstjórnandi

Birkir Árnason, SHS, formaður fagdeildar sjúkraflutningamanna

Jón Kristinn Valsson, SHS, formaður fagdeildar slökkviliðsmanna

Ólafur Stefánsson, SA, formaður fagdeildar stjórnenda

 

Varamenn í stjórn eru:

Árni Snorri Valsson, HSU og Hlynur Kristjánsson, SÍ.

Lagabreytingar

Þingið samþykkti einróma lagabreytingar um atkvæði þingfulltrúa á þingi LSS þar sem atkvæðavægi fulltrúa hér eftir miðast við greiðslur í félagið eftir deildum, ásamt nokkrum breytum sem tryggir að þingin endurspegli alla þá markhópa sem félaginu ber að sinna. Gerðar voru ýmsar breytingar á lögunum til samræmis við þær breytingar. Lögð fram ný reglugerð um vantraust á stjórn þar sem valdið er fært til fulltrúa ef stjórn nýtur ekki trausts. Reglugerðir um þingsköp og fulltrúaráð voru uppfærðar og reglugerð um golfmót afnumin. Reglur fagdeildar stjórnenda og fagdeildar slökkviliðsmanna voru uppfærðar og samþykktar.

Félags- og samningsréttargjald

Sem hluti af lagabreytingatillögum sem lágu fyrir þinginu um að eyða hugtakinu „hlutastarfandi“ úr lögum félagsins var samþykkt tillaga að um að allir félagsmenn greiða 1,3% af heildarlaunum til félagsins, sem var áður að aðilar í fullu starfi greiddu 2,5% af grunnlaunum til félagsins og hlutastarfandi 1% af heildarlaunum. Þeir sem starfa sem slökkviliðsmenn og hafa greitt aukafélagsgjald til LSS verða nú að greiða 1,3% af heildarlaunum til að fá fulla þjónustu. Aukafélagsaðild á eingöngu við um fagaðild til félagsins og nýtur viðkomandi  hvorki réttinda úr sjóðum félagsins né aðstoð við kjaramál. Því er mikilvægt fyrir félagsmenn að breyta um fyrirkomulag.

 

Á þinginu voru eftirtaldar ályktanir samþykktar:

Ályktun um að LSS telur nauðsynlegt að sjúkrabifreiðar með kassayfirbyggingu (e. C-type ambulance) verði teknar inn sem hluti af íslenska sjúkrabifreiðaflotanum.

Að skora á heilbrigðisyfirvöld og tengdar stofnanir að sameinast um eflingu málaflokks um bráðaþjónustu og sjúkraflutninga og hefja þegar í stað framhaldsvinnu og uppbyggingu sem grundvallast af þeim gögnum sem liggur fyrir í þeirri stefnumótunarvinnu sem hefur þegar verið unnin.

Að nám félagsmanna verði metið með viðurkenndum hætti og því sama og þekkist í öðru fagnámi og er það því hagsmunamál að uppfæra úrelt kerfi og koma því inn í nútímann.

Engin þinggleði var í ár en ef aðstæður leyfa munu fulltrúar gera sér glaðan dag á næsta fulltrúaráðsfundi.