Hæfnigreining á starfi slökkviliðsmanna

Starf slökkviliðsmanna er mikilvægur hlekkur í innviðum Íslands. Menntun þeirra fer fram í gegnum Brunamálaskólann sem starfræktur er af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Í maí sl. skipaði félags- og barnamálaráðherra starfshóp um málefni Brunamálaskólans sem var falið það verkefni að móta framtíðarsýn og stefnu Brunamálaskólans, endurskrifa reglugerð um skólann, sem og að huga að tengingu hans við almenna skólakerfið.

Með ofangreint að leiðarljósi hefur starfshópurinn tekið ákvörðun um að láta hæfnigreina starf slökkviliðsmanna og hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun samið við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um að annast greininguna. Í hæfnigreiningunni  felst að meta hvaða hæfni þurfi til að gegna starfi slökkviliðsmanns og á hvaða stigi hæfnin þurfi að vera í því starfi. Þá verða niðurstöður hæfnigreiningarinnar útfærðar í svonefndan starfaprófíl sem inniheldur skilgreiningu á starfi slökkviliðsmanna og hæfnikröfum, en starfaprófílinn verður síðan notaður sem viðmið í námskrá og uppbyggingu námsvísa fyrir Brunamálaskólann og til að auðvelda tengingu á náminu inn í þrep menntakerfisins. Starfaprófílinn mun því nýtast sem mikilvægt gagn inn í vinnu starfshópsins um málefni Brunamálaskólans, svo sem við að móta framtíðarsýn og stefnu skólans.

Á næstu vikum stendur til að starfshópurinn muni í samstarfi við fulltrúa slökkviliða landsins taka þátt í greiningarfundum á vegum Fræðslumiðstöðvarinnar til að vinna að gerð starfaprófíls fyrir starf slökkviliðsmanna. Leitast verður við að þátttakendur komi úr ólíkum rekstrarformum slökkviliða hvort sem um ræðir dag- eða vaktvinnu.

*Starfshópur um málefni Brunamálaskólans er skipaður fulltrúum Félags slökkviliðsstjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

https://www.hms.is/frettir/allar-frettir/haefnigreining-a-starfi-slokkvilidsmanna/