300 Brunahanar - sýning á Akranesi 23.-25.

Föstudaginn 23. mars kl. 17-19 verður sýningin “300 Brunahanar” opnuð í gömlu lögreglustöðinni að Kirkjubraut 10 á Akranesi. Um er að ræða stúdíu í máli og myndum eftir Garðar H. Guðjónsson blaðamann og Guðna Hannesson ljósmyndara. Hún verður opin 24. og 25. mars kl. 13-17. Okkur Guðna væri það mikil ánægja ef þið sæjuð ykkur fært að vera við opnunina eða skoða sýninguna um helgina.

Höfundar fóru um Akranes sumarið 2017 og mynduðu alla brunahana í póstnúmeri 300, alls 112 talsins af sjö mismunandi tegundum sem eru afar misjafnar að útliti, gerð og afli. Á sýningunni verða fulltrúar hverrar tegundar sýndir, annars vegar í sínu náttúrulega umhverfi en hins vegar á svörtum grunni. Hverri mynd fylgja margvíslegar upplýsingar um viðkomandi brunahana, svo sem um uppruna, sögu, staðsetningu, vatnsþrýsting, rennsli, fjölda viðkomandi tegundar í bæjarlandinu og fleira. Höfundar verða á staðnum og geta upplýst gesti um efni sýningarinnar.