Umsókn um aðild
Orlofsvefur
Mínar síður
Viðburðir
Kjaramál
Sjóðir
Þing LSS
Útgefið efni
Fagdeild sjúkraflutningamanna
Fagdeild slökkviliðsmanna

Hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á lífeyrismálum opinberra starfsmanna?

Stefnt er að því að samræma lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Fyrirhugaðar breytingar eiga einungis við A-deildir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Brúar lífeyrissjóðs. B-deildir og V-deild eru óbreyttar. Í þessu felst að reglur um ávinnslu réttinda munu breytast. Í stað jafnrar ávinnslu réttinda yfir starfsævina mun réttindaávinnsla verða aldurstengd og viðmiðunaraldur verður 67 ár. Þessar breytingar munu taka gildi frá og með 1. júní 2017 og leiða af breytingu á lögum sem Alþingi samþykkti í desember s.l. Núverandi sjóðfélagar í A-deildum LSR og Brúar munu halda óskertum réttindum og breytingarnar hafa ekki áhrif á þá sem eru í B-deildum sjóðanna.

Hvað þýðir annarsvegar jöfn ávinnsla réttinda og hinsvegar aldurstengd ávinnsla réttinda?

Með jafnri ávinnslu er átt við að ávinnsla greiddra iðgjalda er jöfn yfir starfsævina, óháð aldri. Þannig fær hver greiðandi sömu réttindi, án tillits til aldurs. Með aldurstengdri ávinnslu er átt við að réttindi taki mið af aldri sjóðfélaga. Iðgjöld yngri sjóðfélaga eru verðmætari því þau eiga eftir að ávaxtast yfir lengri tíma. Þannig njóta yngri sjóðfélagar ávinnings af því hve lengi þeirra iðgjöld eiga eftir að ávaxtast. Réttindi sjóðfélaga verða því í samræmi við verðmæti iðgjaldanna sem þeir greiða.

Skerðast lífeyrisréttindi núverandi félagsmanna í A-deildum LSR og Brúar?

Nei, ekki verður gerð breyting á réttindum sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar við upptöku á nýju réttindakerfi. Réttindi þeirra verða tryggð með framlögum úr sérstökum lífeyrisaukasjóðum og varúðarsjóði. Í þessu felst að sjóðfélagar sem greiddu A-deildir LSR og Brúar einhvern tíma á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017, eiga rétt á svokölluðum lífeyrisauka. Lífeyrisaukinn verður notaður til að bæta þann mismun sem verður á útreikningi á réttindum þeirra miðað við aldurstengda ávinnslu og jafna ávinnslu ásamt hækkun viðmiðunaraldurs lífeyristöku úr 65 í 67 ár. Sérreglur um lífeyristökualdur lögreglumanna verða áfram í gildi.
Sjóðfélagar sem ekki greiddu í sjóðinn á tímabilinu 1. júní 2016 – 1. júní 2017 en eru enn í formlegu ráðningarsambandi eiga einnig rétt til lífeyrisauka. Þá er sjóðnum heimilt að framlengja framangreint tímabil um 12 mánuði vegna náms, veikinda eða fæðingarorlofs sjóðfélaga. Sjóðfélagar sem eiga rétt til lífeyrisauka halda þeim rétti þó þeir skipti um starf, að því gefnu að starfið veiti rétt til aðildar að A-deildar LSR eða Brúar.

Hækkar lífeyristökualdur þeirra sem nú starfa hjá hinu opinbera úr 65 árum í 67?

Sjóðfélagar í A-deildum LSR og Brúar geta hafið töku lífeyris hvenær sem er á aldrinum 60 til 70 ára. Þetta verður óbreytt í nýju kerfi. Viðmiðunaraldur til útreiknings lífeyris hækkar úr 65 árum í 67. Sú breyting hefur ekki áhrif á réttindi núverandi sjóðfélaga LSR og Brú. Lífeyrisgreiðslur til þeirra verða þær sömu og þær hefðu verið fyrir breytinguna en þeir eiga möguleika á að vinna til 70 ára aldurs og auka enn við réttindi sín.

Af hverju verður viðmiðunaraldur lífeyristöku opinberra starfsmanna hækkaður úr 65 árum í 67 ár?

Meginmarkmið samkomulagsins er að samræma lífeyriskerfið hér á landi svo að allt launafólk njóti sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Með þessu er stuðlað að auknum hreyfanleika milli vinnumarkaða. Á almennum vinnumarkaði er lífeyristökualdur 67 ár. Núverandi sjóðfélögum verður þó bætt hækkun lífeyristökualdurs þannig að þeir geti farið á óbreyttan lífeyri 65 ára.

Hvernig verða laun á opinberum- og almennum markaði jöfnuð?

Heildarsamtök opinberra starfsmanna og fulltrúar opinberra launagreiðenda munu þróa aðferðarfræði til greiningar á launamun. Því næst verður ákveðið í hvaða tilfellum þurfi að leiðrétta launamun einstakra hópa og gerð áætlun um launajöfnun. Hún mun fara fram á grundvelli kjarasamninga.