Umsókn um aðild
Orlofsvefur
Mínar síður
Viðburðir
Kjaramál
Sjóðir
Þing LSS
Útgefið efni
Fagdeild sjúkraflutningamanna
Fagdeild slökkviliðsmanna

31.12.2024

Áramótakveðja formanns LSS

Áramótakveðja

Árið hefur liðið hratt og einhvern vegin virðist allt sem okkur vantar gerast á hraða snigilsins þó allt annað gerist allt of hratt. Stjórn og skrifstofa LSS hefur haft nóg að gera á þessu ári en sem fyrr er töluverð vinna í kringum sjóði félagsins en einnig hefur réttindamálum félagsmanna fjölgað og því í mörg horn að líta.

LSS tók þátt 1-1-2 deginum sem var að vanda haldinn 11. febrúar en þar var verðlaunaður hópur krakka sem dregin var út úr eldvarnargetrauninni sem farið hafði fram árið 2023.

Stærsti viðburður ársins 2024 er klárlega þing LSS sem var haldið dagana 12. – 14. apríl en þar var mótuð stefna LSS til næstu tveggja ára ásamt því að kosin var ný stjórn LSS til næstu tveggja ára.

Á afmælisdegi félagsins 12. maí var annað árið í röð haldið opið hús hjá LSS og var að þessu sinni fyrrverandi varaformönnum afhent gullmerki félagsins. Gert er ráð fyrir að halda áfram að halda upp á afmæli félagsins og afhenta þeim félagsmönnum sem starfað hafa fyrir félagið viðurkenningu fyrir þeirra störf.

Kjaraviðræður hafa staðið yfir allt árið en í byrjun júní var undirritaður kjarasamningur milli LSS og SA vegna Isavia og var sá samningur samþykktur. Viðræður við ríkið hafa svo staðið yfir og var kjarasamningur undirritaður í október en sá samningur var felldur af félagsmönnum en engir fundir hafa verið undanfarið en gert er ráð fyrir að hefja aftur viðræður í byrjun janúar. Kjarasamningar við Samband íslenskra sveitarfélaga hafa gengið tregleg en þær hafa staðið yfir með hléum í 14 mánuði og verður ekki framhaldið fyrr en á nýju ári.

Í lok október var haldið leiðbeinendanámskeið um umgengni við raf- og tvinnbíla en Kurt Vollmacher sérfræðingur frá Belgíu var leiðbeinandi á námskeiðinu. Námskeiðið sóttu 15 slökkviliðsmenn frá 7 slökkviliðum en námskeiðið var haldið í samstarfi við HMS. LSS hefur unnið að því að efla samstarf við HMS varðandi fræðslu til félagsmanna og á næsta ári munum við bæta við fagtengdum námskeiðum fyrir slökkviliðsmenn.

Eldvarnarátak LSS fór fram í 32 skiptið í nóvember og desember og sem fyrr heimsóttu slökkviliðsmenn um allt land 3. bekk grunnskólanna en þetta mikilvæga forvarnarverkefni er klárlega stolt félagsins. Það er mikilvægt að við höldum áfram að stuðla að auknu öryggi í brunamálum og fá börnin til liðs við okkur en þau eru ótrúlega öflugir fulltrúar okkar heima fyrir.

Dagur reykskynjarans er 1. desember og í ár var haldið áfram með samstarf við HMS um auglýsingar í tilefni dagsins þar sem við minnum fólk á mikilvægi reykskynjarans. Auglýsing HMS í ár var ótrúlega vel heppnuð og vakti verðskuldaða athygli sem vonandi skilar sér til sem flestra heimila.

Undirbúningur er hafinn vegna Á VAKT FYRIR ÍSLAND 2025 en námsstefnan verður haldin um miðjan október á næsta ári. Sú nýbreytni verður á næstu námsstefnu að stefnt er að því að halda námskeið á fimmtudeginum fyrir námsstefnuna bæði í slökkvifræðum og tengt sjúkraflutningum.

LSS er í þróun og á nýju ári verður tekið í notkun nýtt tölvukerfi sem mun gera allar umsóknir í sjóði félagsins ásamt umsóknum um orlofshús, talsvert aðgengilegra en einnig getur kerfið aukið upplýsingaflæði til félagsmanna. Einnig er stefnt að því að opna upplýsingasíðu á facebook fyrir starf LSS en hingað til hafa fagdeildir félagsins haldið úti sýnum síðum.

LSS óskar félagsmönnum gleðilegs nýs árs og farsældar á komandi ári með þökkum fyrir samstarfið á liðnu ári. Við munum halda áfram að efla félagið okkar árið 2025 ásamt því að efla faglega þætti í okkar starfi.


Bjarni Ingimarsson

Formaður LSS

Lestu líka

14.1.2025

Félagsfundur vegna stöðu kjaramála

6.1.2025

Samningaviðræðum við ríkið vísað til ríkissáttasemjara.

31.12.2024

Áramótakveðja formanns LSS