20.11.2024
Heilbrigðisþing helgað heilsugæslu, fimmtudaginn 28. nóvember næstkomandi
Heilbrigðisþing 2024
Heilsugæslan, svo miklu meira….
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra boðar til heilbrigðisþings 2024 þann 28. nóvember næstkomandi á Hótel Reykjavík Nordica. Þetta er sjöunda árið í röð sem heilbrigðisþing er haldið. Þingin eru hverju sinni helguð einhverju tilteknu málefni sem varðar almenning og samfélagið miklu. Þingin eru opinn vettvangur umræðu og skoðanaskipta og þar með mikilvægt innlegg í stefnumótun og skipulag heilbrigðisþjónustunnar.
Þingið að þessu sinni verður helgað heilsugæslunni. Fjallað verður um hugmyndafræðina að baki heilsugæsluhugtakinu, um þróun og stöðu heilsugæslu nútímans og hvernig sjá megi fyrir sér heilsugæslu framtíðarinnar. Íslenskir og erlendir fyrirlesarar munu fjalla um fjölbreyttar áskoranir í heilsugæslu og ræða leiðir til að takast á við þær. Tækninýjungar færa okkur stöðugt ný tækifæri sem nýtast við veitingu og skipulag heilbrigðisþjónustu og um það verður einnig fjallað.
Á vef þingsins: www.heilbrigdisthing.is eru allar upplýsingar um þingið, drög að dagskrá, upplýsingar um fyrirlesarana og þar fer einnig fram skráning þátttöku.
Þingið er öllum opið og aðgangur ókeypis.
Hægt verður að fylgjast með þinginu í beinu streymi. Þeir sem gera það þurfa ekki að skrá þátttöku sína, en skráning er nauðsynleg fyrir þá sem mæta. Þingið verður haldið á Hilton Reykjavík Nordica. Formleg skráning hefst kl. 9.00 en húsið verður opnað kl. 8.30 og verður þá boðið upp á morgunhressingu.
Með kveðju og von um að sem flestir sjái sér fært að mæta á þingið.
Margrét Erlendsdóttir, upplýsingafulltrúi / Head of Information
Heilbrigðisráðuneyti / Ministry of Health
Síðumúli 24, 108 Reykjavík, Iceland
Sími / Tel: (+354) 545 8700
Farsími / Mobile: (+354) 892 3694
www.stjornarradid.is - Fyrirvari/Disclaimer