Umsókn um aðild
Orlofsvefur
Mínar síður
Viðburðir
Kjaramál
Sjóðir
Þing LSS
Útgefið efni
Fagdeild sjúkraflutningamanna
Fagdeild slökkviliðsmanna

18.11.2024

Opnun Eldvarnaátaks 2024

Eldvarnaátak slökkviliðsmanna um allt land er fram undan:

Slökkviliðsmenn brýna fyrir fólki að efla eldvarnir á heimilunum

Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefst með heimsókn Brunavarnir Suðurnesja í Heiðarskóla miðvikudaginn 20. nóvember kl. 10. Þar munu Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður Suðurkjördæmis og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, starfandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar, ræða við börnin í 3. bekk um mikilvægi eldvarna fyrir öryggi heimilanna. Þá fer fram rýmingar- og björgunaræfing þar sem slökkviliðið notar sérstakan búnað til að herma eftir eldi. Loks fá starfsfólk og gestir þjálfun í notkun slökkvibúnaðar.

Slökkviliðsmenn um allt land taka í kjölfarið þátt í átakinu sem beinist að því að efla eldvarnir á heimilum til að vernda líf, heilsu og eignir fólks.

Slökkviliðin heimsækja grunnskóla landsins og beina fræðslu um eldvarnir að nemendum í 3. bekk grunnskóla og fjölskyldum þeirra. Lögð er áhersla á að heimili séu búin eldvarnabúnaði á borð við reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi:

·         Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum.

·         Slökkvitæki á að vera við helstu flóttaleið.

·         Eldvarnateppi á að vera á sýnilegum stað í eldhúsi.

·         Tryggja þarf öllum á heimilinu að minnsta kosti tvær flóttaleiðir.

·         Allir þekki neyðarnúmerið, 112, líka börnin.

·         Brýnt er fyrir börnunum að fara varlega með kertaljós og annan opinn eld og gæta þess að hlaða snjalltæki og rafhlaupahjól aðeins í öruggu umhverfi.

Börnin fá að sjá teiknimyndina um Loga og Glóð og baráttu þeirra við Brennu-Varg. Þau fá eintak af handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins, endurskinsborða frá Neyðarlínunni, 112, og fleira. Þeim gefst jafnframt kostur á að taka þátt í Eldvarnagetrauninni. Vegleg verðlaun eru í boði og verða þau afhent á 112-deginum, 11. febrúar 2025.

Samkvæmt könnunum sem Gallup hefur gert fyrir Eldvarnabandalagið eru heimilin í landinu mjög misjafnlega vel varin gagnvart eldsvoðum. Almennt sýna kannanir að heimilin efla eldvarnir jafnt og þétt. Frá þessu eru þó mikil frávik:

·         Fólk á aldrinum 25-34 ára er mun ólíklegra en aðrir til að hafa eldvarnateppi og slökkvitæki á heimilinu.

·         Eldvarnir í fjölbýlishúsum eru lakari en almennt gerist og þá sérstaklega í stærri fjölbýlishúsum.

·         Íbúar í leiguhúsnæði eru mun verr búnir undir eldsvoða en aðrir.

Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Ólafur Gíslason og önnur slökkvilið í landinu.

Lestu líka

20.12.2024

Staða kjaraviðræðna við sveitafélögin.

7.12.2024

Sam­starf um heil­brigðis­kerfið - nýjar á­herslur í stjórnar­sátt­mála

3.12.2024

Íbúð á Spáni 1.apríl - 25.nóv 2025 - búið er að opna fyrir umsóknir